Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Mold ert þú

Jarðvegur og íslensk náttúra

  • Höfundur Ólafur Gestur Arnalds
Forsíða bókarinnar

Moldin fæðir og klæðir jarðarbúa og hún miðlar jafnframt ferskvatni um vistkerfi. Skilningur á náttúrunni og hvernig hún bregst við álagi vegna athafna mannsins á jörðinni krefst þekkingar á jarðvegi. Jarðvegur á Íslandi er einstakur á heimsvísu, frjór en viðkvæmur, því aðstæður fyrir þróun hans hérlendis eru afar sérstakar.

Grunnur að jarðvegsfræði er lagður í upphafi bókarinnar og síðan er íslenskum jarðvegi gerð sérstök skil.

Í bókinni er varpað ljósi á hversu miðlæg moldin er í kolefnishringrás jarðar, enda er þar að finna meira kolefni en í gróðri og andrúmslofti samanlagt. Hún getur bæði bundið og losað CO° og hefur afgerandi áhrif á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og loftslagshlýnun.

Í „Mold ert þú“ er útskýrt af hverju áhrif frosts á náttúruna eru meiri hérlendis en þekkist annars staðar. Hinum einstöku sandauðnum og áhrifum þeirra á öll vistkerfi landsins er einnig gefinn sérstakur gaumur.

Leitast er við að opna augu lesandans fyrir eðli og ástandi vistkerfa – þar sem moldin gegnir lykilhlutverki ásamt gróðurþáttum. Ferli hnignunar eru skýrð sem og þeir þættir sem skilgreina ástand lands. Í bókinni er dregin upp skýr mynd af stöðu íslenskra vistkerfa sem víða eru í afar hnignandi ástandi.

Fjallað er um rætur landhnignunar og rangrar landnýtingar hérlendis sem annars staðar, en þeirra er m.a. að leita í lögum, styrkjakerfi, samdaunasýki o.fl. þáttum.

Að lokum er vikið að vistheimt – endurheimt vistkerfa – sem er e.t.v. mikilvægasta viðfangsefni mannkynsins nú á dögum.

Bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á náttúru Íslands.

Bókin er unnin í samstarfi við:

Landbúnaðarháskóla Íslands

Landgræðsluna

Vísindasjóð Orkuveitu Reykjavíkur