Bónorðin tíu

Forsíða bókarinnar

Gamansaga úr íslenskum veruleika.

Þessi bók vinnur engin Nóbelsverðlaun, enda er þetta gamansaga, jafnvel ýkjusaga. Persónurnar eru venjulegir Íslendingar. Þarna er Metúsalem, kominn yfir miðjan aldur. Þarna er Salvör Sónata, jafnaldri, en þau þekkjast ekkert. Og þarna er líka besti vinur aðal, Biggi blindi sem er ekki allur þar sem hann er séður. Börn þeirra Metúsalems og Salvarar eru Halli dyravörður (Ég þangað!) og Sól Hlíf, sem gerir ekki neitt. Vandinn er að Salvör er ekkja en eiginmaðurinn lét eftir sig mörg hundruð milljóna fyrirtæki sem bróðir hans stal. Hvar eru allir peningarnir? Bróðirinn er varasamur náungi, sjálfur Borgar Vörður, sem er meinilla við að skila peningum sem hann á ekki.

Við ítrekum: ýkjusögur vinna engin verðlaun, en þær gætu fengið lesendur til að brosa, jafnvel hlæja. Veitir nokkuð af þegar íslenska þjóðin er þjökuð af jarðskjálftum og eldgosum, verðbólgu og vöxtum, sívinsælum stjórnmálamönnum, umferðarþunga í borginni, Júróvisjón á sprengjusvæði og áköf leit stendur yfir að nýjum biskupi og forseta landsins.

„Ein allra fyndnasta og skemmtilegasta bók sem ég hef lesið.“ Laddi