Íslensk skáldverk

Aldrei aftur vinnukona

Hér segir af Þuríði sem fór til Ameríku að leita gæfunnar heldur en að verða ævilangt vinnukona á Íslandi. Einnig skyggnumst við í hugarheim systur Þuríðar sem hóf búskap á hrjóstrugu landi á Íslandi og ól þar upp börn sín. En henni varð einatt hugsað til systur sinnar í Ameríku sem hún kynntist þó ekki fyrr en á fullorðinsárum.

Breiðþotur

Gagnaleki skekur heimsbyggðina. Þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftlagsmálum. Áhrifa lekans gætir hjá krökkunum í Þorpinu. Verið er að undirbúa Þorpið undir næsta gagnaleka, þann sem mun afhjúpa öll leyndarmálin. Breiðþotur er grípandi saga um vináttu og söknuð, tæknihyggju og uppgang öfgaafla.

Bréfbátarigningin

Eitt af fyrstu prósaverkum Gyrðis Elíassonar kom út árið 1988 og var tilnefnt til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs tveimur árum síðar. Sögurnar eru fjórar og mynda sagnasveig þar sem andrúmsloftið er sveipað rómantískri hulu bernskusýnar og nostalgíu. Verkið kemur nú út að nýju með eftirmála eftir Halldór Guðmundsson.

Dauðaþögn

Hrefna hefur starfað á lögmannsstofunni Skildi frá útskrift en þar sinnir hún aðallega þinglýsingum, skilnaðarpappírum og annarri skriffinnsku. Þegar morðmál dettur óvænt inn á borð hennar teygja þræðir málsins sig í ófyrirséðar áttir og Hrefna þarf að leggja allt í sölurnar til að fóta sig í nýju hlutverki. Er hún að storka örlögunum?

Dauðinn einn var vitni

Hörður Grímsson á ekki sjö dagana sæla. Hann er að rannsaka ólöglegt verðsamráð stórfyrirtækja en saknar þess að rannsaka alvöru glæpi. Einn daginn heyrir hann undarlega yfirlýsingu óþekkts manns í lokuðu talstöðvarkerfi lögreglunnar. „Eftir þrjá daga mun ég hlaupa af stað. Eftir að ég hleyp af stað hafið þið þrjár klukkustundir til að stöðva mig.“

Deus

Skáldið Sigfús missir tökin á lífinu þegar hann finnur guð. Unglingurinn Ísabella glímir við stórar og flóknar tilfinningar. Blaðamaðurinn Andri Már þarf að fóta sig á nýjum og ókunnuglegum vettvangi. Örlög þeirra fléttast saman við áform nýsköpunarfyrirtækisins DEUS Technologies um að þróa trúarbrögð sem gervigreind.

Dimma Drungi Mistur

Bækurnar um lögreglukonuna Huldu hafa borið hróður Ragnars Jónassonar um allan heim. Dimma, Drungi og Mistur voru í einni og sömu vikunni á meðal tíu mest seldu bóka Þýskalands. Þær hlutu Palle Rosenkrantz-verðlaunin sem besta þýdda glæpasagan í Danmörku og Dimma var valin besta þýdda glæpasagan á Spáni árið 2023.

DJ Bambi

Bambi er 61 árs gömul trans kona sem vann áður sem plötusnúður en er í dag sérfræðingur í smæstu byggingareiningum mannslíkamans, frumum. Þetta er saga hennar frá því hún deildi móðurkviði með tvíburabróður sínum og þar til hún fór að taka kvenhormón. Auður Ava heldur hér áfram rannsókn sinni á kynjuðum heimi.

Eldri konur

Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum og ósigrum.

Eyja

Af hverju vill fyrrverandi stjúpmóðir Eyju að þær hittist öllum þessum árum síðar; hvað er ósagt? Eyja er saga um flókin fjölskyldutengsl, brengluð samskipti og sár sem ekki gróa. Þetta er fyrsta bók Ragnhildar Þrastardóttur en sagan bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjum röddum, árið 2024.

Eyjar

Mæðgurnar Katrín og Magdalena hafa orðið til skiptis í sögu fjölskyldu þar sem allt virðist ósköp slétt og fellt. En brátt verður ljóst að innan fjölskyldunnar krauma leyndarmál! Þessi hrífandi saga er römmuð inn af stórbrotnu sögusviði Breiðafjarðar. Þetta er önnur bók höfundar en fyrri bók, Hylurinn (2021), hlaut afar góðar viðtökur.

Ég færi þér fjöll

Manuel er kominn til Íslands þar sem hann hefur leigt herbergi hjá eldri hjónum. Á sama tíma er Sigyn á leið til Spánar. Ferðalög þeirra virðast í fyrstu ótengd og tilviljunum orpin – eða hvað? Eftir því sem sögunni vindur fram kemur í ljós að ekkert er sem sýnist og fortíðin lifnar við. Ný saga frá höfundi Karítas án titils.

Ég læt sem ég sofi

Einstæð móðir tveggja barna fær íbúð leigða á mjög góðum kjörum en kemst fljótlega að því að það er engin tilviljun. Húsið á sér afar sorglega sögu. Lögreglan er send heim til smákrimma og þar finnst fyrir tilviljun taska sem kann að varpa ljósi á margra ára gamalt mál – þegar ung stúlka hvarf úr garðskúr og sást aldrei aftur.