Gaddavír og gotterí
Bókin Gaddavír og gotterí segir frá lífi og leikjum barna í sveit á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Lífið snýst um búskapinn og dýrin. Hugarheimur barna er tímalaus en bókin höfðar ekki síst til þeirra sem upplifðu þennan tíma og kynntust því að umgangast hesta alla daga, dýrin voru leikfélagar og náttúran stýrði lífi fólks.
Lífið er einfalt og skemmtilegt en líka flókið og hættulegt þar sem dýrin geta veikst og börn geta slasast. Ævintýri hversdagsins eru viðfangsefnið. Lífið snérist um að vinna með fjölskyldunni að því sem var á döfinni hverju sinni eftir árstíðum. Börnin leika sér við systkinin og börn sem koma í heimsókn en verða að hafa ofan af fyrir sér sjálf. Eldra fólk hefur mjög hælt því að geta lesið um lífið eins og það var þegar það var að alast upp.
Sögurnar eru tíu talsins, og fjalla um þætti í lífi fólksins eins og að fara í réttir, fara í berjamó, leika sér á skautum og fleira. Sögurnar eru á góðu máli og orðaforði sem lýsir mörgu í sveitum landsins sem nú er gjörbreytt.
Það er upplagt fyrir afa og ömmur að lesa bókina fyrir barnabörnin og ræða þá tíma þegar enginn skjár var á heimilinu og tengingin við umheiminn var útvarpið, sveitasíminn einu fjarskiptin og enginn skjár á heimilinu. Það er heillandi að fá að dvelja um stund í heimi bernskunnar og gleyma sér við að rifja upp leiki og störf.