Hamingjugildran Hamingjugildran
Hættu að erfiða, byrjaðu að lifa.
Eins og við munum komast að er eltingaleikur við hamingjuna, til lengri tíma litið, ekki vænlegur til árangurs. Rannsóknir sýna að því ákafar sem við leitum ánægjulegra tilfinninga (hamingjunnar) og reynum að forðast þær óþægilegu, því líklegri verðumvið til að finna fyrir kvíða og þunglyndi.
Úr formála Rúnars Helga Andrasonar sálfræðings:
Þegar ég fer í gegnum grunnáherslur ACT með fólki sem hefur barist lengi við erfiðar tilfinningar finn ég fyrir miklum létti þegar það öðlast skilning á því að það þurfi ekki að breyta hugsunum, tilfinningum og skynupplifunum. Margir hafa upplifað sig misheppnaða eftir að hafa lengi reynt að breyta þessu en án árangurs. Með því að læra að lifa með erfiðum hugsunum og tilfinningum, en samt gera það sem skiptir máli, skapast frelsi til athafna og til að skapa sér innihaldsríkt líf. Staðreyndin er nefnilega sú að hamingja og velgengni krefst þess að maður berjist og hafi fyrir hlutunum. Hamingjan er þannig aukaverkun af öllu stritinu. Við getum reynt að forðast neikvæða hluti í lífi okkar en það varir aðeins í stuttan tíma. Erfiðleikar og þrautir lífsins eru alltaf handan við hornið. Stöðug forðunarhegðun leiðir til þess að við missum sjónar á því sem skiptir okkur máli.
Við eigum yfirleitt fremur auðvelt með að takast á við jákvæða upplifun en erfitt með að takast á við neikvæða upplifun. Það er samt umhugsunarefni að það sem við fáum út úr lífinu ákvarðast ekki af því jákvæða sem okkur langar til að upplifa heldur hversu viljug og getumikil við erum til að takast á við erfiðleika og þjakandi tilfinningar.
Úr inngangi Hauks Sigurðssonar sálfræðings:
Frá árinu 2004 hef ég verið þátttakandi þessu nýja samfélagi sálfræðivísinda, fyrst sem framhaldsnemi í klínískri sálfræði og síðan sem starfandi sálfræðingur. Þessi ólíka vísindalega nálgun hefur getið af sér nýtt meðferðarform sem kallast ACT (Acceptance and commitment therapy) og hefur aðferðin nú þegar blómstrað sem sálfræðilegur rannsóknargrunnur og meðferð um allan heim. Undanfarin ár hef ég sinnt kennslu í ACT meðferðarforminu fyrir meðferðaraðila, bæði í eigin námskeiðum og í klínísku háskólanámi. Fjöldi meðferðaraðila sem eru menntaðir og þjálfaðir í notkun ACT fer því ört fjölgandi hér á landi, til hagsbóta fyrir alla þá sem sækja sér aðstoð við sálrænum vandamálum.
Aðferðir ACT nýtast þó ekki bara þeim sem sækja sálfræðilega meðferð, heldur öllum sem vilja skapa innihaldsríkt, fyllandi og árangursríkt líf byggt á því sem raunverulega skiptir máli í lífi hvers og eins. Það er því til mikilla bóta fyrir almenning að kollegi minn, Hugrún Sigurjónsdóttir, hefur þýtt þessa bók, The Happiness Trap eftir Russ Harris sem er einn helsti sérfræðingur heimsins í ACT. Í bókinni færir hann þér þá nýju innsýn sem ACT hefur veitt okkur inn í hvernig mannleg hugarstarfsemi virkar og leggur til mikið af fjölbreyttum og einföldum æfingum sem hreyfa við ferlum í átt að sálrænum sveigjanleika. Við lesturinn nýtur þú þeirrar einstöku færni höfundarins í að setja vísindalega undirbyggt efni fram á einfaldan, auðskiljanlegan og léttleikandi hátt. Þú lærir árangursríkar aðferðir byggðar á nýjustu vísindum sálfræðinnar sem hjálpa þér að losa þig úr viðjum hugans, ná árangri og upplifa fyllandi og hamingjuríkt líf.