Járn, hör, kol og kalk

Forsíða bókarinnar

Ljósmyndir af fullunnum verkum en líka ljósmyndir af ferlum á vinnustofu. Bókin er að hluta unnin í tengslum við sýningu í Listasafni Íslands 2024: „Járn, hör, kol og kalk“.

Í bókinni eru jafnframt textar á ensku og íslensku eftir höfundana Ann-Sofie Gremaud, Erin Honeycutt, Geir Svansson, Gunnar Harðarson og Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Bókin er að hluta til unnin samhliða undirbúningi fyrir sýningu í Listasafni Íslands 2024: Járn, hör, kol og kalk. Ný verk Þóru Sigurðardóttur.  

Á sýningunni voru verk, unnin á síðastliðnum fimm árum.

Í bókinni birtast myndir af verkum þar sem unnið er með margvíslegar planteikningar og kannanir á láréttum og lóðréttum ferlum. Einnig eru þar dæmi um einfaldar línuætingar, prentaðar lag ofan á lag, svo og ljósmyndir af verkum sem unnin eru með kolum, kalki, grafíti og eggtempera á límgrunnaðan hör; stundum er litalagið þunnt og gagnsætt og áferð hörsins gegnir þar mikilvægu hlutverki sem hluti heildarmyndarinnar. Jafnframt birtast stillur úr vídeói sem frumsýnt var í sal Listasafns Íslands 2024. Þar er um að ræða upptöku úr eldhúsi að lokinni vinnu með innmat; úrgangur og himnur fljóta í vatni. Í bókinni eru einnig  myndir af þrívíðum verkum í vinnslu, skúlptúrar þar sem koma fyrir „objektar“ og hlutir úr margskonar efnum, sumir mótaðir en aðrir fundnir, stundum einhverskonar “rusl” eða úrgangur.  Loks eru yfirlitsmyndir frá sýningunni í listasafninu og af vinnustofu, auk ljósmynda af nokkrum verkum frá árunum 1992 til 1994 sem tengjast þeim athugunum sem sýningin hverfist um.

Í bókinni eru textar á ensku og íslensku eftir fimm höfunda, en textarnir voru skrifaðir í tilefni sýninga Þóru á tímabilinu 1998 til 2017 og spanna því tæp tuttugu ár af ferli hennar. Þeir birta fjölbreytta nálgun á mismunandi tímum á það vandasama viðfangsefni að skrifa um myndlist. 

Saman ná þessir fimm textar að draga upp áhugaverða og blæbrigðaríka mynd af höfundarverki Þóru.  

Úr formála Kristínar G. Guðnadóttur, listfræðings.