Tókýó-Montana hraðlestin

Forsíða bókarinnar

Tókýó-Montana hraðlestin er safn hundrað og þrjátíu örsagna sem tengjast persónulegri reynslu höfundar þegar hann dvaldi í Japan og Montana-ríki í Bandaríkjunum.

Hnyttni Brautigans og hið ljóðræna ímyndunarafl hans njóta sín til fulls í þessari ómótstæðilegu bók.

Brautigan sagði um form þessarar óvenjulegu skáldsögu að hver saga táknaði aðskilda stöð á upphugsuðu járnbrautarspori hraðlestarinnar milli Japans og Montana og að „ég“ væri rödd þessara stöðva.

„Besta bók Brautigans.“ – Gyrðir Elíasson

„Hemingway sjöunda áratugarins.“ – Jarvis Cocker

„Óumdeilanlega fyndin.“ – The Times

„Allir aðdáendur Brautigans verða að eignast þessa bók.“ – Guardian

Bandaríski rithöfundurinn Richard Brautigan (1935–1984) ólst upp við sára fátækt í Oregon-ríki á vesturströnd Bandaríkjanna. Um tvítugt fluttist hann til San Francisco þar sem hann bjó lengst af ævinni. Þar hóf hann höfundarferil sinn með ljóðagerð. Bækur hans fengu litla athygli þar til Silungsveiði í Ameríku kom út árið 1967. Sú bók sló rækilega í gegn og hefur selst í yfir 4 milljónum eintaka. Tókýó-Montana hraðlestin er ellefta bókin eftir Brautigan sem kemur út í íslenskri þýðingu.

Þórður Sævar Jónsson (f. 1989) hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur – Vellankötlu (tilnefnd til Maístjörnunnar), Blágil, Brunagadd og Heimkynni – og eitt smáprósasafn, 49 kílómetrar er uppáhalds vegalengdin mín. Hann hefur áður þýtt fimm skáldverk eftir Richard Brautigan auk sögu eftir Lúkíanos frá Samósata úr forngrísku. Þá var Þórður einn af yfirritstjórum meðgönguljóðaseríunnar á árunum 2016–2018.