Út á Brún og önnur mið
útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930
Í bókinni er rekin saga bændaútgerðar í Vogum og á Vatnsleysuströnd allt frá elstu fáanlegu heimildum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar vélbátar höfðu leyst árabátana af hólmi. Sagt er frá áhrifum Viðeyjarklausturs á svæðinu, konungsútgerð, spítalafiski, sjósókn, netaveiðideilum, saltfiskverkun sjóbúðum og þilskipaútgerð.
Bók þessi byggir á viðamikilli könnun frumheimilda í fornbréfasafni, Þjóðskjalasafni og fleiri skjalasöfnum sem gefur í mörgum tilfellum nýja sýn á söguna, bæði sögu svæðisins sem og sjósóknar. Hún er öllum áhugasömum um útgerðarsögu fróðleg lesning og fræðandi um lífshætti þeirra sem sóttu sjóinn og byggðu landið fyrr á öldum.
Höfundurinn, Haukur Aðalsteinsson (f.1945), er skipasmiður, fæddur og uppalinn á Vatnsleysuströnd. Hann hefur lengi verið áhugamaður um sögu útgerðar og hefur áður birt tímaritsgreinar um sögu þilskipa á Suðurnesjum. Þá hefur hann einnig smíðað tvíæring, algengasta fiskbát við sunnaverðan Faxaflóa á átjándu öld, eftir teikningu úr Íslandsleiðangri Joseph Banks árið 1772 og er bátnum lýst í bókinni.
Mikið af efninu er sótt í frumheimildir og hefur ekki áður komið fyrir sjónir almennings.
Ritstjóri bókarinnar er Jóhanna Guðmundsdóttir sagnfræðingur á Þjóðskjalasafni, búsett í Vogum.
Ljósmyndari er Ellert Grétarsson og kortagerðarmaður Hans H. Hanssen.
Umbrot Egill Baldursson ehf.