Vetrardagur í Glaumbæ
Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig það var að alast upp í torfbæ í gamla daga? Þetta er framhald sögunnar Sumardagur í Glaumbæ. Í þessari ríkulega myndskreyttu sögubók er Glaumbær sveipaður vetrarbúningi og við fylgjumst með Jóhönnu, Sigga og heimilishundinum Ysju við jólaundirbúning. Bókin kemur út á fjórum tungumálum.
Vetrardagur í Glaumbæ er söguleg skáldsaga sem veitir börnum sem fullorðnum innsýn í líf og störf barna á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Þrátt fyrir að einungis séu um 140 ár frá því sagan á að hafa átt sér stað hefur daglegt líf fólks tekið gríðarlegum breytingum og er fátt sambærilegt í lífi fólks þá og nú. Sumt breytist þó ekki í tímans rás – eins og fjölskyldubönd, þörf fyrir öryggi, vinskap, gæðastundir og hlátur, og ekki síst ánægjan við að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Sögusviðið er Glaumbær, prestsetur í Skagafirði, sem taldist til efnameiri bæja með tilheyrandi umsvifum. Sagan er að mestu byggð á raunverulegum frásögnum og fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á 19. öld.
Bókin kemur út á íslensku, ensku, frönsku og þýsku.