Grafreiturinn í Barnes
Stutt og seiðmögnuð skáldsaga sem gerist á þremur ólíkum sviðum og kemur lesandanum oftar en ekki í opna skjöldu. Þrátt fyrir lágstemmdan stíl á yfirborðinu er ólgandi og stundum ógnvekjandi undiralda í verkinu.
Atburðir, tími og sjónarhorn fléttast listilega saman, rétt einsog í óperu eftir Monteverdi, og skapa einstæða tilfinningu fyrir sögupersónum og sambandinu þeirra á milli. Í aðalhlutverki er þýðandi sem flyst frá London til Parísar og síðan til Wales, þar sem hugsanlega hitnar í kolunum.
Gabriel Josipovici fæddist í Nice í Frakklandi árið 1940. Foreldrar hans voru gyðingar af ítölskum og rússneskum uppruna, auk þess að eiga rætur að rekja til svæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs. Á árunum 1945-1956 bjó hann í Egyptalandi, en flutti þaðan til Englands þar sem hann lagði stund á enska tungu í St. Edmund Hall í Oxford og var síðan kennari við Sussex-háskólann í Brighton um áratuga skeið. Josipovici hefur sent frá sér tuttugu skáldsögur og tíu fræðibækur, en ritaði auk þess æviminningar móður sinnar, skáldkonunnar Sacha Rabinovits. Ennfremur hefur hann samið nokkur verk fyrir leikhús og útvarp. Bókmenntagagnrýni hans hefur birst í mörgum virtum blöðum og tímaritum. Grafreiturinn í Barnes er fyrsta verk Josipovicis á íslensku.