Krydd lífsins

Forsíða bókarinnar

Krydd lífsins er safn tólf smásagna sem allar gerast í nútímanum í höfuðborgum Norðurlanda, allt frá Nuuk til Helsinki. Sögurnar, sem eru skrifaðar af innsæi, varpa ljósi á mannlegt eðli og eru í senn áleitnar, grátbroslegar, fyndnar og harmrænar. Sjaldnast er allt sem sýnist og hvaðeina getur umturnast eða afhjúpast í sviphendingu.

Hvað gerir staurblankur listfræðingur sem uppgötvar óvænt tvö verðmæt verk eftir Banksy á vegg bakhúss á Laugavegi? Hvort er verra að eiga mislukkaða tilveru eða öðlast nýtt líf sem fíkill á skandinavískar sjálfshjálparbækur? Geta bókmenntir hugsað? Hvað gerir læknir sem á harma að hefna þegar fjandmaður og örlagavaldur í lífi hans er borinn inn á bráðamóttökuna með öllu ósjálfbjarga?

Krydd lífsins er lipurlega skrifuð bók og með henni sýnir höfundur hve gott vald hann hefur á smásagnaforminu.

„Einari Erni tekst listilega að draga fram sterkar myndir af breyskleika tilverunnar. Sögurnar kalla fram magnaðar tilfinningar gagnvart sögupersónum og örlagaríkum ákvörðunum þeirra. Frábærar sögur.“

Katrín Júlíusdóttir, rithöfundur og fv. ráðherra

Síðasta skáldsaga Einars Arnar, Ég var nóttin, kom út 2022 og hlaut frábærar viðtökur gagnrýnenda:

„Leiftrandi fyndin, ónotaleg og spennandi skáldsaga.“

Arnór Hjartarson, Stundin

– Ummæli um fyrri verk Einars Arnar –

Ég var nóttin (2022):

„Þetta er líklega með fyndnari skáldsögum sem ég hef lesið í seinni tíð og einhvern veginn er nötur¬legur húmorinn í henni um leið hlýr ... sagan er, með sínum mikla og neyðarlega húmor, mikill skemmtilestur.“

Ágúst Borgþór, DV

„Ég held ég hafi bara ekki hlegið jafn mikið yfir bók í mörg ár, ef nokkurn tímann.“

Bjarni M. Bjarnason rithöfundur

„Snilldarlega skrifuð bók. Höfundur gerir mannlýsingum og tíðarandanum skil af mikilli næmni ásamt góðum skammti af dulinni kímni. Því verða sumar annars mjög svo skrautlegar persónur sögunnar afar trúverðugar en jafnframt ógleymanlegar. Þetta er bók sem erfitt er að leggja frá sér.“

Örnólfur Kristjánsson tónlistarmaður

Tár paradísarfuglsins (1998):

„Margslungin, hrollvekjandi og spennandi lesning.“

World Literature Today

Leikverkið Krákuhöllin (1999):

„Einar Örn hefur skrifað texta sem unun er á að hlýða: Hann er ljóðrænn, heimspekilegur, fyndinn, harmrænn, einlægur, tvíræður og áleitinn. Hann einkennist af myndmáli og táknum og lifir lengi í huga áhorfandans/hlustandans ... ég fullyrði að [Krákuhöllin] er með betri íslenskum leikverkum sem skrifuð hafa verið síðastliðin ár.

Soffía Auður Birgisdóttir, Morgunblaðið

– Um höfundinn –

Einar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík árið 1961. Hann hefur unnið að margvíslegum ritstörfum, þar á meðal skrifað leikrit en jafnframt skáldsögurnar Næðingur, Benjamín, Draugasinfónían, Tár paradísarfuglsinsog Ég var nóttin. Einar Örn er lögfræðingur með meistarapróf í viðskiptastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og MA–gráðu frá Sotheby’s Institute of Art í London.