Ókei

Leitin að upphafi og sögu þekktasta orðatiltækis í heimi

Forsíða bókarinnar

OK eða O.K., ýmist með lág- eða hástöfum, er sagt vera þekktasta útflutningsafurð Bandaríkjanna, fyrr og síðar. Alla vega er þessi stafasamsetning fyrir löngu komin um gjörvalla jörð og mun í ofanálag vera fyrsta orðið sem heyrðist mælt á tunglinu. Það er ekki lítið afrek!

Í Vesturheimi fæddi OK bráðlega af sér okay og okey, sem og oke um 1930 og eftir það hafa fjölmargar útgáfur bæst við. Til Íslands hefur orðið eflaust borist sem talmál, eins og víðast hvar annars staðar, en ekki er ljóst nákvæmlega hvenær. Á prenti sést það hins vegar fyrst á 4. áratug 20. aldar. Síðar eignaðist það afkvæmi hér — sambandið allt í kei(inu). En hvernig byrjaði þetta allt? Það er spurningin. Í þessari bók eru reifaðar 50 kenningar, sem allar hafa það að markmiði að reyna að svara henni.