Orðaglingur

Forsíða bókarinnar

Ljóðin eru í bundnu máli og fjalla um margvísleg efni. Þau bera vott um listfengi og fljúgandi hagmælsku auk víðtækrar þekkingar á íslenskri tungu, bragformi og skáldamáli að fornu og nýju. Það einkennir ljóðagerð Magnúsar hversu óvenju margvíslegum bragarháttum hann yrkir undir.

Magnús J. Jóhannsson fæddist að Gufuskálum á Snæfellsnesi í nóvember 1922. Á æskuheimilinu bjó föðuramma hans, sem hann mat mikils, vel hagmælt og hafsjór af rímum og öðrum kveðskap. Strax á barnsaldri hóf Magnús að setja saman vísur og svo fór að vísna- og ljóðagerð var hans helsta hugðarefni um ævina. Í ljóðum Magnúsar birtist ást hans á náttúrunni, landinu, jurtum og dýrum og vinarþel til samferðafólks. Ljóðin eru um margvísleg efni og bera vott um listfengi og fljúgandi hagmælsku auk víðtækrar þekkingar á íslenskri tungu, bragformi og skáldamáli að fornu og nýju. Svo er kímnin aldrei langt undan. Samkvæmt ummælum Kristjáns Eiríkssonar cand. mag. í íslenskum fræðum,mun líklega ekki hafa komið út ljóðabók frá því fyrir sl. aldamót sem inniheldur ljóð ort með sambærilegan fjölda bragarhátta.

Magnús hélt áfram að yrkja langt fram á elliár, en hann lést síðsumars 2014 á 92. aldursári og lét eftir sig mikinn fjölda kvæða og lausavísna. Í þessari bók er tekið saman úrval ljóða hans og vísna, en hluti þeirra hefur ekki áður birst á prenti.