Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Snerting

Forsíða bókarinnar

Kristófer leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn á tímum veirunnar til að hitta konu sem han kynntist 50 árum fyrr en hvarf skyndilega úr lífi hans. Og um leið heldur hann á vit minninga um ástir, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið. Bókin var söluhæsta bók ársins 2020.

Kristófer hyggst loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar, eftir áratuga farsælan rekstur. Sama dag berst honum óvænt vinarbeiðni á Facebook – og tíminn nemur staðar. Það er líkt og áratugirnir gufi upp og hann hverfi aftur um fimmtíu ár, standi við læstar dyr um morgun í London – þegar hann uppgötvaði að þau voru farin.

Hann leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn. Og um leið heldur hann á vit minninga um ástir, fornar og nýjar, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið, hugsjónir og veruleika, en undir kraumar spurning sem hefur leitað á hann í hálfa öld: Hvers vegna fóru þau án þess að kveðja?

Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er áhrifamikil skáldsaga sem gerist í Reykjavík og Tókýó samtímans og London á sjöunda áratugnum. Hér sýnir hann allar sínar bestu hliðar í glæsilega skrifaðri sögu sem rígheldur lesanda allt til óvæntra endaloka.