Ritröð Árnastofnunar nr. 116 Tíðfordríf Jóns lærða Guðmundssonar I–II

Forsíða bókarinnar

Tíðfordríf Jóns Guðmundssonar lærða er í tveimur bindum. Fyrra bindi er inngangur ásamt heimildaskrá, handritaskrá og nafnaskrá. Seinna bindi er texti Tíðfordrífs ásamt orðaskrá og nafnaskrá. Aðeins bútar hafa verið prentaðir áður.

Orðið „tíðfordríf“ finnst ekki í fornmáli og er sennilegast tökuorð úr lágþýsku og hefur verið þýtt „dægradvöl“.

Brynjólfur biskup Sveinsson hugðist skrifa rit um fornan norrænan átrúnað sem aldrei varð. Biskupinn stóð því fyrir mikilli fræðastarfsemi og var þáttur Jóns lærða mjög mikilvægur. Um 1623 sagði Jón í Grænlands annálum að Snorri hefði aukið við þá Eddu sem Sæmundur fróði hafði sett saman. Þetta er elsta heimildin um Sæmundar-Eddu og eftir Jóni fara lærdómsmenn eins og Brynjólfur biskup.

Tíðfordríf er svar við spurningalista og því mjög sundurlaust. Í inngangi er rakin varðveisla ritsins, en handrit eru mörg og meiri hluti inngangs eru ítarlegar skýringar á texta. Fremst er um anda, engla og djöfla og vitnað í lágþýska og latneska texta, sem heimildir fundust að. Mikið er um steina og sumt áður ókunnir miðaldatextar. Efni úr Tíðfordrífi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er mestallt miðaldatextar. Kaflar eru um kynjadýr, Jötunheima, Grikkland og Álfheimum er lýst samkvæmt fornum sögum. Spurt er um gamalt orðafar eins og dýra heiti og skipa heiti. Kaflar eru úr þekktum ritum og nokkuð af kveðskap. Af næstum óþekktu efni hérlendis er tilvísun í lágþýska kvæðið um Reineke Fuchs, refinn hrekkvísa, og Jón Indíaprest. Margt smálegt er ónefnt.