Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Fyrir eilífum friði

Forsíða bókarinnar

Þetta rit Kants dregur heimspeki hans saman í beittri greiningu á stríðshneigð nútímans sem grefur undan framþróun og öryggi. Enn í dag eiga hugleiðingar hans við: Um frið sem er ekki annað en undanfari stríðs, um samninga sem leiða aðeins til frekari átaka og um þá sóun mannslífa og verðmæta sem engum stjórnvöldum ætti að leyfast að véla um.

Fyrir eilífum friði er eitt síðustu verka Immanuels Kant, skrifað í lok átjándu aldar í skugga stríðsátaka en einnig á tímum bjartsýni um mátt mannlegrar skynsemi. Í því birtist vissan um að hægt sé að að stýra samfélagsþróun í átt að friðsamlegri samvinnu í þágu framfara og velsældar.

En Kant var þó enginn sakleysingi og í ritinu setur hann einnig fram beitta greiningu á stríðshneigð nútímans sem grefur undan öryggi og spillir stöðugt ávinningi af auknum mannlegum þroska. Enn þann dag í dag eiga hugleiðingar hans við: Um frið sem er ekki annað en undanfari stríðs, um samninga sem leiða aðeins til frekari átaka og um þá sóun mannslífa og verðmæta sem engum stjórnvöldum ætti að leyfast að véla um.

Í verkinu beinir Kant sjónum að veruleika stjórnmála og alþjóðasamninga og að meginreglum þeirra. Þær grundvallast á því heimspekilega viðhorfi sem Kant hafði sett fram í ritum sínum áratugina á undan og hafa haft ómæld áhrif á vestrænan hugsunarhátt í meira en 200 ár.

Höfundur inngangs er Emma Björg Eyjólfsdóttir.