Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Frumherjar

Tíu húsameistarar fæddir fyrir aldamótin 1900

Bókin fjallar um frumherja í íslenskri húsagerð sem eru fæddir fyrir aldamótin 1900, fimm í Reykjavík og fimm úti á landi. Þeir lærðu fyrstu handtökin í smiðjunni heima, fóru í Iðnskólann eða í smíðanám hjá góðum meisturum, kláruðu sveinsstykkin sín - jafnvel tvö - og tóku stefnu á teikniskóla í Kaupmannahöfn, Noregi eða í Þýskalandi.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Fyrir eilífum friði

Þetta rit Kants dregur heimspeki hans saman í beittri greiningu á stríðshneigð nútímans sem grefur undan framþróun og öryggi. Enn í dag eiga hugleiðingar hans við: Um frið sem er ekki annað en undanfari stríðs, um samninga sem leiða aðeins til frekari átaka og um þá sóun mannslífa og verðmæta sem engum stjórnvöldum ætti að leyfast að véla um.

Íslensk menning Jötnar hundvísir

Norrænar goðsagnir í nýju ljósi

Jötnar hundvísir er í senn tímamótaverk í alþjóðlegum rannsóknum á norrænni goðafræði og áhugavekjandi íslenskt fræðirit, lifandi og alþýðlega fram sett. Með rannsókn sinni sýnir höfundur fram á að jötnar goðheimsins eru mun flóknari en talið hefur verið; þeir tengjast sköpun heimsins og búa yfir þekkingu um upphaf hans og örlög.

Sjávarútvegur og eldi

Í bókinni er fjallað um alla þætti sjávarútvegs, allt frá veiðum til sölu auk grunnþátta fiskeldis og áhrifum þessara atvinnugreina á samfélagið og framleiðslu. Umhverfis- og þróunarmál eru skoðuð auk þess sem stjórnun fiskveiða hérlendis og erlendis er lýst. Þá er einnig fjallað um alþjóðavæðingu, nýsköpun og tækifæri.

Söngur ljóðstafanna

Í bókinni er safn greina um bragfræði, einkum stuðlasetningu. Rýnt er í ástæðurnar fyrir því að sérhljóðin stuðla hvert við annað, fjallað um ljóðstafinn s og flækjurnar kringum hann, gerð grein fyrir því hvernig stuðlunin skiptist niður á orð eftir því hvaða orðflokki þau tilheyra, sýnt fram á að stundum er hægt að aldursgreina ljóð.

Tónar útlaganna

Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf

Bókin fjallar um tónlistarmennina Róbert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic sem mótuðu íslenskt menningarlíf eftir flótta frá heimalöndum sínum undan klóm nasismans. Hér tókst þeim að lyfta tónlistarmenningu þjóðarinnar á nýtt stig af elju og smitandi ákafa. Tímamótaverk um mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Um uppeldisfræði

Ritið er aðgengilegt og sýnir hvernig Kant beitti siðfræði sinni í hversdagslegum aðstæðum og sem hjálp við að hugsa um uppeldi og menntun barna, samskipti foreldra og kennara við börn og andrúmsloft á heimili. Í þessu stutta verki hittir Kant iðulega naglann á höfuðið um álitamál sem allir standa frammi fyrir einhverntímann á lífsleiðinni.