Með harðfisk og hangikjöt að heiman
Undirbúningur og þátttaka Íslands á Sumarólympíuleikunum í London árið 1948
Íslendingar sendu fjölmennan flokk á Ólympíuleikana í London árið 1948 þrátt fyrir gjaldeyrishöft á Íslandi og matarskort í Bretlandi. Með í för voru 100 kíló af íslenskum mat til að bregðast við aðstæðum. Fjallað er um undirbúninginn sem gekk ekki þrautalaust fyrir sig og þátttökuna á leikunum ásamt hinum ýmsu áskorunum sem fylgdu.
Sumarólympíuleikarnir í London árið 1948 voru merkilegir fyrir margra hluta sakir. Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu ekki verið haldnir Ólympíuleikar í 12 ár, en aðstæður í London voru erfiðar svona stuttu eftir stríð og stundum er talað um „meinlætaleikana“ af þeim sökum. Þetta voru líka fyrstu sumarleikarnir sem Ísland keppti á eftir lýðveldisstofnun og Íslendingar höfðu metnað til að standa sig vel. Ísland sendi því stóran flokk á leikana og íslenskar konur þreyttu frumraun sína á Ólympíuleikum.
Hér er farið yfir áhugaverðan tíma í íslenskri íþróttasögu í alþjóðlegu samhengi.