Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Um uppeldisfræði
Ritið er aðgengilegt og sýnir hvernig Kant beitti siðfræði sinni í hversdagslegum aðstæðum og sem hjálp við að hugsa um uppeldi og menntun barna, samskipti foreldra og kennara við börn og andrúmsloft á heimili. Í þessu stutta verki hittir Kant iðulega naglann á höfuðið um álitamál sem allir standa frammi fyrir einhverntímann á lífsleiðinni.
Bókin sýnir vandasamt samband uppalanda og barns, opnar sýn á barnið sem frjálsa skynsemisveru. Manngildi, göfgi mennskunnar, er leiðarljós bókarinnar. Það felur í sér að börn séu alin upp í vitund um jafnrétti sem er mikilvægur boðskapur í samfélagi þar sem fólk með ólíkan menningarlegan bakgrunn lifir og starfar saman.
Ritið byggist á fyrirlestrum og sýnir aðra hlið á Immanuel Kant en birtist í áhrifamestu heimspekiritum hans. Þegar bókin kom fyrst út árið 1803 var Kant orðinn þekktur fyrir stórvirki sín á sviði þekkingarfræði, siðfræði og fagurfræði. Í þessari bók er annað uppi á teningnum því hér fæst hann við hversdagsleg verkefni í lífinu sjálfu: umönnun og uppeldi barna með hagnýtum vangaveltum og ráðleggingum. Þó blasir við að Kant er um leið að útfæra siðfræði sína. Í umfjöllun hans um kennslu og uppeldi barna er hugmyndin um almenna skilyrðislausa skyldu, sem hann hafði sett fram og rökstutt í bókinni Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, jafnan í forgrunni.
Bókin sýnir vandasamt samband uppalanda og barns, opnar sýn á barnið sem frjálsa skynsemisveru. Manngildi, göfgi mennskunnar, er leiðarljós bókarinnar. Það felur í sér að börn séu alin upp í vitund um jafnrétti sem er mikilvægur boðskapur í samfélagi þar sem fólk með ólíkan menningarlegan bakgrunn lifir og starfar saman. Uppeldisfræði Kants á sérstakt erindi við þau okkar sem eru uppalendur, við foreldra og kennara, en líka við afa og ömmur, frístundaleiðbeinendur og aðra sem umgangast börn. Sama erindi á bókin við þá sem stjórna menntastofnunum og ákvarða stefnu í menntamálum með því að semja lög og námskrár.