Útgefandi: Forlagið - Mál og menning

Börn í Reykjavík

Einstaklega glæsilegt og áhugavert stórvirki um líf barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld til okkar daga, prýtt hátt á sjötta hundrað ljósmynda. Börnin birtast okkur á hvunndagsfötum og sparibúin, sagt er frá námi þeirra og skyldum, leikjum, skemmtunum og félagsstarfi, auk þess sem fjallað er um þróun í barnaverndar-, uppeldis- og skólamálum.

Duna

Saga kvikmyndagerðarkonu

Guðný Halldórsdóttir, Duna, er afkastamesta kvikmyndagerðarkona þjóðarinnar. Eftir hana liggja ástsælar gamanmyndir eins og Stella í orlofi en líka dramatískar myndir líkt og Veðramót auk fjölda heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Hér hefur Duna sjálf orðið og fer yfir viðburðaríkan feril í sprenghlægilegu en heiðarlegu uppgjöri.

Ég er það sem ég sef

Fimmta bók höfundakollektífsins Svikaskálda er galsafengin og margræð ljóðabók um bugun og nýjar víddir, stiga sem ögra náttúrulögmálum, konur sem hringlar í og niðurföll sem soga til sín lífið sjálft. Svikaskáld eru Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir.

Fjársjóður í mýrinni

Þriðja bókin um krakkana í Mýrarsveit, þau Stellu, Ella og Bellu sem búa með pabba sínum í gráa húsinu og Móses sem býr með mæðrum sínum þremur í bláa húsinu. Einn daginn birtast óprúttnir gestir með ískyggileg plön um framtíð mýrarinnar í farteskinu. Skemmtileg og spennandi saga sem tekur á brýnum málum eins og umhverfisvernd og börnum á flótta.

Föðurráð

Bubba Morthens þekkja allir og saga hans hefur verið sögð og skráð en Bubbi mætir sífellt nýjum veruleika: Hér yrkir hann um lífsreyndan föður sem fylgist með ungum dætrum á leið út í lífið, þann ólgusjó sem hann hefur sjálfur siglt, en ráð hans og orð fá ekki alltaf hljómgrunn. Í brjóstinu býr uggur en líka fögnuður yfir nýjum degi, nýrri veröld.

Gólem

Grípandi saga úr myrkum framtíðarheimi. Ung kona vinnur fyrir valdamikið fyrirtæki við að lengja líf ríkasta fólks heims. Dag einn er tilvist fyrirtækisins ógnað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Bækur Steinars Braga njóta vinsælda víða um heim og hér fylgir hann eftir verðlaunasögunum Trufluninni og Dánum heimsveldum.

Herbergi Giovanni

Á meðan David bíður þess að unnusta hans snúi heim úr langferð kynnist hann Giovanni. Í óhrjálegu herbergi í úthverfi Parísar upplifa þeir í senn ást og frelsi, skömm og ótta. Í kjölfarið þarf David að ákveða hvort hann gangi að kröfum samfélagsins eða horfist í augu við sjálfan sig. Valin ein af hundrað áhrifamestu skáldsögum heims af BBC.

Hnífur

Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar

Árið 2022 réðst grímuklæddur maður með hníf á Salman Rushdie og veitti honum lífshættulega áverka. Hér segir Rushdie í fyrsta sinn frá þessum skelfilegu atburðum og langri leiðinni til bata. Þetta er meistaraleg og afar opinská frásögn eins fremsta rithöfundar okkar tíma, hjartnæm lesning um lífið og ástina og styrkinn til að rísa upp að nýju.