Útgefandi: Forlagið - Mál og menning

Síða 3 af 4

Sigrún í safninu

Hér segir einn ástsælasti barnabókahöfundur þjóðarinnar, Sigrún Eldjárn, frá uppvexti sínum í Þjóðminjasafninu þegar faðir hennar, Kristján Eldjárn, var þjóðminjavörður. Hvernig er að alast upp í safni? Að eiga gæslukonur og beinagrindur að vinkonum og fá konunga í heimsókn? Söguna prýða einstakar myndir sem bera öll höfundareinkenni Sigrúnar.

Sjáumst í ágúst

Dýrðleg saga um heita þrá, hugrekki og frelsi eftir Nóbelshöfundinn Márquez. Anna Magdalena hefur verið gift í 27 ár og átt farsælt líf í borginni. En í ágúst ár hvert fer hún út í eyna þar sem móðir hennar er jörðuð og finnur sér elskhuga til einnar nætur. Sagan var óbirt þegar Márquez lést 2014 og kemur fyrst út nú; óvæntur fengur fyrir lesendur.

Skálds saga

74 kaflar úr höfundarlífinu

Hvaðan kemur innblástur skáldsins og þörfin til að skrifa? Og hvernig komast hugmyndirnar á blað? Steinunn Sigurðardóttir hefur sent frá sér tugi vinsælla skáldverka og annarra bóka en hér segir hún frá sjálfri sér og ævintýralegu höfundarlífi sínu – lýsir viðhorfum sínum, aðferðum og aðstöðu við skriftir með leiftrandi gáska og einstakri stílfimi.

Skógarhögg

Geðshræring

Menningarelíta Vínar er samankomin í kvöldverðarboði. Í dimmu skoti situr maður sem á vart eftir að segja aukatekið orð allt kvöldið en fer í huganum með hamslausa einræðu um tilgerð og tækifærismennsku gesta og gestgjafa, fólks sem hann hafði sagt skilið við 20 árum áður – en getur þó ekki alveg slitið sig frá. Sprenghlægileg og ögrandi skáldsaga.

Skrímslakisi

Skrímslakisi er ógurlega sætur og mjúkur og litla skrímslið er alltaf með hann. Dag einn hverfur kisi og finnst hvergi. Litla skrímslið er miður sín. En af hverju er stóra skrímslið svona þögult? Áttunda bókin um litla og stóra skrímslið. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og hlotið margs konar verðlaun og viðurkenningar.

Skrípið

Hér segir vesturíslenskt tónskáld frá tónleikum sem hann stóð fyrir í Eldborgarsal Hörpu þar sem hinn látni píanóleikari Horowitz endurflutti tónleika sína frá Ríkistónlistarskólanum í Moskvu árið 1986. Skrípið er heillandi og hugmyndarík skáldsaga eftir einn áhugaverðasta höfund landsins sem birtist hér lesendum í miklu stuði.

Stórkostlega sumarnámskeiðið

Pabbi hefur steingleymt að skrá Pétur á sumarnámskeið en Stefanía bjargar því og stofnar til sérsniðins námskeiðs fyrir vin sinn. Og þar með upphefst fjörugt sumar þar sem við sögu koma andsetin töfraþvottavél, vöffluturn, óútreiknanlegir ullarsokkar og rammskakkur leynikofi. Fyrri bók höfunda var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

Vörubílar og vinnuvélar

Velkomin í heim vörubíla og vinnuvéla sem hafa aðstoðað við ýmis verk í meira en hundrað ár. Án grafa og vinnuvéla væru engir góðir vegir í sveitum eða götur og gangstéttir í borgum. Öflugir vinnubílar hjálpa til við að flytja vörur og sorp, ryðja snjó og slökkva elda. Bók sem hittir í mark hjá öllum sem hafa áhuga á stórum tækjum!