Íslensk skáldverk

Kafalda

Metnaðarfullur aðstoðarmaður ráðherra verður fyrir netárás sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þróaðar símanjósnir og ný kynslóð tölvutækni gerir ósýnilegum óvinum hans auðvelt að leika sér með orðstír hans, æru og fyrirætlanir. Samstarfsmenn hans halda að sér höndum og það hriktir í stoðum fjölskyldunnar.

Klökkna klakatár

Eftir andlát þjóðfrægs rithöfundar sest ekkja hans niður og tekur til við að koma skikki á gífurlegt safn skjala sem hann lét eftir sig. Hún reynir að henda reiður á þeim óvæntu upplýsingum sem koma upp úr kös gulnaðra pappíra úr slitnum plastpokum. Hún les og tengir sögu hans við sína, enda höfðu þau átt langt samlíf og stormasamt.

Kona á buxum

Heimildaskáldsaga um Þuríði formann á Stokkseyri sem varð strax á barnsaldri dugandi sjómaður og gekk uppkomin á buxum. Hún fór ótroðnar slóðir og varð fræg fyrir að koma óvænt upp um illræmda glæpamenn í Flóanum. Höfundur sem á sér langa sögu í heimi fræða hefur kafað djúpt í heimildir um Þuríði sem um tíma gekk undir nafninu Þormóður.

Krydd lífsins

Krydd lífsins er safn tólf smásagna sem allar gerast í nútímanum í höfuðborgum Norðurlanda, allt frá Nuuk til Helsinki. Sögurnar, sem eru skrifaðar af innsæi, varpa ljósi á mannlegt eðli og eru í senn áleitnar, grátbroslegar, fyndnar og harmrænar. Sjaldnast er allt sem sýnist og hvaðeina getur umturnast eða afhjúpast í sviphendingu.

Kul

Una rambar á barmi kulnunar og er send vestur á firði í glænýtt úrræði, Kul. Þar dvelur hópur fólks í svartasta skammdeginu og reynir að horfast í augu við myrkrið innra með sér. Fyrir vestan sækir fortíðin á Unu og þegar hrikta fer í stoðum meðferðarinnar, og sjálfsmyndar Unu, tekur það sem hefur frosið fast innra með henni að losna úr læðingi.

Kyrrþey

Vægðarlaus glæpasaga um þrúgandi þögn og heitar tilfinningar. Í fórum látins manns finnur ekkjan lúna skammbyssu sem reynist vera morðvopn úr gömlu og óupplýstu máli. Forvitnin grípur Konráð, fyrrverandi lögreglumann, vegna sams konar vopns sem faðir hans átti, og leiðir hann á vit fortíðar. Og úr djúpi tímans birtist fleira en hann óraði fyrir.

Ljósbrot

Þegar þú stendur frammi fyrir sannleikanum eða ímyndinni, hvort velurðu? Kolbrún er farsæll framkvæmdastjóri, hamingjusamlega gift og fjölskyldumyndin gæti auðveldlega fylgt rammanum úti í búð. Þegar hún býður sig fram til forseta fer af stað atburðarás sem hún hefði aldrei getað séð fyrir.

Mandla

Þegar grindhoruð læða birtist á hjúkrunarheimili tekur öldrunarlæknirinn Eva henni fagnandi. Hún veit að gæludýr hafa góð áhrif á vistmenn slíkra stofnana og berst fyrir því að kötturinn fái að vera. Fljótlega tekur hún eftir því að allir sem læðan Mandla tekur ástfóstri við látast skömmu síðar. Getur verið að hún geti spáð fyrir um andlát fólks?

Miðillinn

Á köldum vetrarmorgni er rannsóknarlögreglan kölluð út að Hólavallagarði. Innan um þá sem þar hafa verið lagðir til hinstu hvílu finnst lík eldri konu og fljótt er ljóst að dauðdaga hennar hefur borið að með saknæmum hætti. Hver getur hafa átt eitthvað sökótt við þessa eldri konu sem virðist hafa verið hlédræg, vanaföst og einförul?

Mikilvægt rusl

Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?

Moldin heit

Ástin í lífi Karenar deyr. Hún mætir í jarðarförina óboðin, situr aftast og segir engum hver hún er. En eftir að hafa borið eina fortíð til grafar skýtur önnur upp kollinum. Moldin heit fjallar um ástina, listina, sorg og missi. Hér er á ferðinni feikisterk skáldsaga frá nýrri og spennandi rödd í íslenskum bókmenntaheimi.