Íslensk skáldverk

Múffa

Markús er 33 ára, býr enn hjá föður sínum og stjúpmóður og heldur sig inni í herbergi á kafi í heimi tölvuleikja. En einn daginn fær hann pakka í pósti sem markar skil fyrir þau öll. Áleitin og grípandi skáldsaga frá snjöllum höfundi, saga um fjölskyldubönd og vináttu, rými og mörk, frelsi og hyldýpi – og það hvernig fólk kýs að lifa lífi sínu.

Rétt áðan

Árum saman hefur Illugi Jökulsson punktað hjá sér ýmislegt af því sem hann sér og heyrir, man og upplifir á ferðum sínum um lífið, samfélagið, veröldina, verslanirnar og heitu pottana. Hér eru þær sögur komnar í eina bók — sprúðlandi fyndnar, nístandi átakanlegar, fallega hlýjar og allt þar á milli.

Sandárbókin

pastoralsónata

Ein vinsælasta saga höfundarins, sterk og áleitin, þar sem ótal kenndir og tilfinningar krauma undir sléttu yfirborðinu. Málari sem hefur sest að í hjólhýsabyggð ætlar að einbeita sér að því að mála tré, en dvölin er þó öðrum þræði hugsuð til að öðlast hugarró eftir ýmis áföll í lífinu. Útgáfan er hluti af nýrri ritröð bóka Gyrðis Elíassonar.

Sextíu kíló af sunnudögum

Þegar Gesti Eilífssyni berst óvænt sendibréf leggur hann upp í langferð. Í Ameríku kynnist hann nýjum og framandi heimi en líka áður ókunnum hliðum á sjálfum sér. Á meðan breytist allt í firðinum hans heima. Hér lýkur Hallgrímur Helgason stórvirkinu um síldarævintýrið á Segulfirði, þríleik þjóðar sem þráði betra líf, þurr gólf og ljós í tilveruna.

Sjúk

Glæpasaga um sálfræðinginn Emmu sem lifir hinu fullkomna lífi með manni sínum og dóttur þegar henni fara að berast nafnlaus skilaboð. Nauðug er hún dregin inn í atburðarás sem átti sér stað fyrir fimm árum þegar vinur hennar var myrtur með harkalegum hætti. Erfið systir, giftir kærastar og eltihrellir hafa áhrif á gang mála.

Skrípið

Hér segir vesturíslenskt tónskáld frá tónleikum sem hann stóð fyrir í Eldborgarsal Hörpu þar sem hinn látni píanóleikari Horowitz endurflutti tónleika sína frá Ríkistónlistarskólanum í Moskvu árið 1986. Skrípið er heillandi og hugmyndarík skáldsaga eftir einn áhugaverðasta höfund landsins sem birtist hér lesendum í miklu stuði.

Snerting

Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson var söluhæsta bókin fyrir jólin 2020 og hlaut einróma lof, auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er nú endurútgefin í tilefni af því að Baltasar Kormákur hefur gert kvikmynd eftir henni.

Sporðdrekar

Meistaralega fléttuð skáldsaga um leyndarmál og svik, ástir og vináttu. Föstudagsmorgunninn 28. október: Fyrir utan bárujárnshús í Hafnarfirði bíður maður í felum. Hann er nýkominn til landsins, skelfur af kulda og er að hefja eftirförina. Þetta er afmælisdagurinn hennar Stellu og hún hefur slæma tilfinningu fyrir kvöldinu. Svo byrjar að snjóa.

Staðráðin í að vera

Staðráðin í að vera er reynslusaga ungrar konu sem að veikist skyndilega af ristilkrabbameini þegar að hún er búsett í London. Sálfræðingur að mennt og meistaranemandi í núvitund notar hún þau verkfæri til að takast á við erfiðar meðferðir. Bókin fjallar líka um dramatískan skilnað, narsissisma og notkun hugvíkkandi efna til að takast á við áföll.

Svikaslóð

Svikaslóð segir frá Sverri og Lísu sem tilheyra listalífinu í Reykjavík. Hann er áhrifamikill leikstjóri og höfundur en hún leikkona sem hverfur gjarnan í skuggann. Þegar sonur Sverris úr fyrra sambandi finnst myrtur tekur líf hjónanna óvænta stefnu og margt misjafnt kemur í ljós.