Fræðirit, frásagnir og handbækur

Tónar útlaganna

Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf

Bókin fjallar um tónlistarmennina Róbert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic sem mótuðu íslenskt menningarlíf eftir flótta frá heimalöndum sínum undan klóm nasismans. Hér tókst þeim að lyfta tónlistarmenningu þjóðarinnar á nýtt stig af elju og smitandi ákafa. Tímamótaverk um mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Um uppeldisfræði

Ritið er aðgengilegt og sýnir hvernig Kant beitti siðfræði sinni í hversdagslegum aðstæðum og sem hjálp við að hugsa um uppeldi og menntun barna, samskipti foreldra og kennara við börn og andrúmsloft á heimili. Í þessu stutta verki hittir Kant iðulega naglann á höfuðið um álitamál sem allir standa frammi fyrir einhverntímann á lífsleiðinni.

Útkall í ofsabrimi

Allar Útkallsbækur Óttars Sveinssonar hafa vermt efstu sæti metsölulistanna í 30 ár. Hér er greint frá baráttu sjö manna upp á líf og dauða þegar Goðinn sekkur í ofsabrimi í Vöðlavík (1994). Mennirnir voru að gefast upp þegar þyrla birtist í ofsaveðrinu. Eftir það gerast óvæntir hlutir sem enda með einni tryllingslegustu flugferð Íslandssögunnar.

Víðerni

Verndun hins villta í náttúru Íslands

Óbyggð víðerni setja einkar sterkan svip á náttúru Íslands. Víðerni eru fágæt á heimsvísu sem eykur enn á mikilvægi þeirra hérlendis. Í þessu riti eru víðernin könnuð frá ólíkum sjónarhornum og leitað svara við ýmsum grunnspurningum um þau, svo sem hvað þau eru, hvaða gildi þau beri og hvernig verði best staðið að verndun þeirra.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl IV. 1733–1741

Fjölbreytt mál komu fyrir réttinn en þar á meðal eru morð, spilling embættismanna, ærumeiðingar og sifjaspell. Fyrrverandi sýslumaður neyddist til að hafast sumarlangt við í skemmu í Húnavatnssýslu og ungur maður úr sömu sýslu var gerður arflaus fyrir leti. Skjöl Yfirréttarins veita einstaka innsýn í íslenskt samfélag á 18. öld.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Þessi frægu glæpamál

Morðin á Sjöundá og Illugastöðum

Átta fullorðnir týndu lífinu og tíu börn innan við fermingu misstu foreldra sína í tveimur þekktustu morðmálum Íslandssögunnar á Sjöundá á Rauðasandi árið 1802 og Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828. Málin hafa orðið rithöfundum að yrkisefni og nokkuð er til af fræðilegri umfjöllun en sjálfir dómarnir hafa ekki verið gefnir út fyrr en á þessari bók.

Þjóðin og valdið

Fjölmiðlalögin og Icesave

Ólafur Ragnar hélt ítarlegar dagbækur í embætti forseta og skráði þar frásagnir af atburðum og samræðum við ráðherra og forystufólk, m.a. þegar deilt var um fjölmiðlalögin og Icesave. Í þeim síðari var efnahagslegt sjálfstæði og jafnvel fullveldi þjóðarinnar undir. Dagbækurnar veita óvænta sýn á þessa einstæðu atburðarás og lærdóma til framtíðar.

Æviskeið

Starfssaga Þorkels Bjarnasonar hrossaræktarráðunautar

Þorkell Bjarnason var hrossaræktarráðunautur B.Í. í 35 ár og hafði fulla yfirsýn yfir allt hrossaræktarstarf í meira en 60 ár. Með ævistarfi sínu lagði hann grundvöll að því ævintýri sem íslensk hrossarækt er nú orðin. Með ræktendum og samstarfsfólki setti hann hásölum hestamennskunnar þá traustu hornsteina sem þeir hvíla nú á.

Öðruvísi, ekki síðri

Handbók skynsegin manneskju um hvernig er hægt að fagna sínu sanna sjálfi og lifa góðu lífi upp frá því

Hér er á ferðinni hjartnæm og oft bráðfyndin frásögn af því hvernig það er að vera skynsegin. En þetta er líka gagnleg handbók um það hvernig best er að takast á við tilveruna þegar hún verður manni um megn og hvetjandi lesning sem brýnir okkur til að skapa samfélag þar sem er pláss fyrir alla. Bókin er gefin út í samstarfi við Einhverfusamtökin.