Þýdd skáldverk

Fyndin saga

Daphne hafði alltaf elskað hvernig Peter sagði söguna þeirra. Hvernig þau kynntust á stormasömum degi, urðu ástfangin og fluttu aftur í heimabæ hans við vatnið til að hefja líf sitt saman. Hann var rosalega góður í að segja hana. Eða þangað til hann áttaði sig á því að hann væri í raun og veru ástfanginn af Petru æskuvinkonu sinni.

Grimmlyndi

Gamalt mál rifjast upp þegar lík ungrar konu finnst í skóginum. Það ber öll merki raðmorðingjans Toms Kerr. En Kerr hefur setið fjögur ár í fangelsi og getur alls ekki verið morðinginn. Allt bendir til að „Hinn“ hafi verið að verki en það var nafnið sem blöðin gáfu félaga Kerrs sem aldrei fannst ...

Handfylli moldar

Eftir sjö ára hjónaband hefur hin fagra lafði Brenda fengið nóg af lífinu á Hetton Abbey, gotneska sveitasetrinu sem er stolt og yndi eiginmanns hennar, Tonys. Hún fer að halda við hinn grunnhyggna John Beaver, yfirgefur Tony og hverfur á vit samkvæmislífsins í London. Óvænt örlög bíða söguhetjanna í þessari óviðjafnanlegu skáldsögu.

Herbergi Giovanni

Á meðan David bíður þess að unnusta hans snúi heim úr langferð kynnist hann Giovanni. Í óhrjálegu herbergi í úthverfi Parísar upplifa þeir í senn ást og frelsi, skömm og ótta. Í kjölfarið þarf David að ákveða hvort hann gangi að kröfum samfélagsins eða horfist í augu við sjálfan sig. Valin ein af hundrað áhrifamestu skáldsögum heims af BBC.

Hildur

Snjóflóð fellur á sumarhúsabyggð við Ísafjörð og Hildur og félagar hennar í lögreglunni mæta á staðinn. Í rústunum finna þau mann sem hefur verið myrtur – í friðsælum bænum er eitthvað kynlegt á seyði. Satu Rämö er finnsk en hefur búið lengi á Íslandi. Spennusögur hennar um Hildi eru orðnar þrjár og hafa slegið rækilega í gegn í Finnlandi og víðar.

Hjartabein

Þegar leigusali Beyah hendir henni út neyðist hún til að leita á náðir föður síns sem býr við allsnægtir í sumarleyfisparadís ríka fólksins í Texas. Þar kynnist hún hinum myndarlega og forríka Samson sem Beyah er sannfærð um að hún eigi fátt sameiginlegt með. Undir ríkmannlegu yfirborði hans glittir þó í eitthvað kunnuglegt, eitthvað brotið.

Hlaupavargur

Tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Ulf Norrstig, skógarvörður á eftirlaunum, er sögumaðurinn í þessu magnaða skáldverki Kerstin Ekman sem gerist í skógum nyrðra Helsingjalands í Svíþjóð. Eftir fundinn með varginum fer hann að skoða hug sinn til veiða, dýranna og skógarins. Gömul minni kallast fram í huga hans.

Hrein

Estela situr inni, borin þungum sökum. Hún rekur sögu sína frá því hún flutti til borgarinnar og réð sig í vist á heimili velstæðra hjóna. Þar vann hún húsverkin og sinnti barni í sjö ár, sem var langur tími þegar valdaójafnvægið er yfirþyrmandi og félagsleg einangrun algjör. Hún ætti að vera farin aftur heim en einn daginn er það orðið of seint.

Í landi sársaukans

Alphonse Daudet (1840-1897) var einn þekktasti rithöfundur Frakka á ofanverðri nítjándu öld, einkum fyrir smásögur, skáldsögur og leikrit. Nú á tímum eru mörg af verkum hans fallin í gleymsku, en þó ekki hið sígilda Bréf úr myllunni minni sem kom út á íslensku fyrir margt löngu og svo þessi sérstæða bók.

Jólabókarleitin

Mirren leggur af stað norður í land í leit að einstakri bók fyrir fárveika ömmusystur sína. Hún kynnist myndarlegum, dökkeygum bóksala sem býðst til að leggja henni lið. Saman þræða þau fornbókabúðir, en er hann allur þar sem hann er séður? Og er bókarleitin erindisleysa eða mun hún leiða Mirren inn á nýjar og óvæntar brautir? Töfrandi jólasaga.

Jólabústaðurinn

Imogen er afar fær viðburðastjórnandi og samstarfsfólkið lítur upp til hennar. Hún er samt ekki sú sem hún þykist vera, fortíðin geymir erfið leyndarmál sem hún trúir engum fyrir. Henni býðst að verja jólunum í friðsældinni í Cotswold en leyndarmál fortíðar gera óvænta innrás í líf hennar svo hún neyðist til að taka erfiðar ákvarðanir.